Dómstóll í Kambódíu, sem nýtur stuðnings Sameinuðu þjóðanna, hefur synjað beiðni Kaings Gueks Eavs, sem er betur þekktur sem Duch, og dæmt hann í lífstíðarfangelsi. Duch var einn af helstu böðlum Rauðu kmeranna í Kambódíu.
Duch var yfirmaður fangabúða þar sem 15 þúsund manns létu lífið. Árið 2010 var hann dæmdur fyrir að hafa framið glæpi gegn mannkyninu og hlaut hann 35 ára fangelsisdóm. Dómurinn hefur nú verið lengdur í lífstíðarfangelsi.
Hann áfrýjaði dómnum í mars í fyrra á þeim grundvelli að hann hefði einfaldlega verið að fylgja skipunum yfirmanna sinna. Hann heldur því fram að það hefði aldrei átt að rétta í málinu.
Duch, sem er 69 ára, er einn fyrsti hátt setti liðsmaður Rauðu kmeranna sem þurfa að svara til saka fyrir gjörðir sínar fyrir dómstólum.
Réttarhöldin í máli hans voru fyrstu réttarhöld dómstóls sem stofnaður var með stuðningi Sameinuðu þjóðanna til að sækja til saka fyrrverandi forystumenn Rauðu kmeranna sem urðu um 1,7 milljónum manna að bana á árunum 1975-79, eða um fjórðungi þjóðarinnar.