Fjármálaráðherrar evrusvæðisins munu eiga símafund í hádeginu í dag í kjölfar þess að tólf klukkustunda maraþonfundir fulltrúa Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabanka Evrópu og grískra stjórnvalda skiluðu ekki árangri í gær.
Þá sagði fjármálaráðherra Grikklands, Evangelos Venizelos, í dag að fyrirhuguð fundi evruráðherra um málefni landsins á mánudag hefði verið frestað til miðvikudags.
Svokölluð „þrenning“ hefur staðið í viðræðum við grísk stjórnvöld um næsta hluta björgunarpakka til handa landinu sem áætlað er að muni nema um 130 milljörðum evra. Hefur hún farið fram á að vinnuaflskostnaður í landinu verði lækkaður en því hafa verkalýðsfélögin harðneitað, þar sem þeir óttast að það muni leiða til dýpri kreppu.
Nokkuð liggur á að klára viðræðurnar en margir sérfræðingar eru sammála um að það verði að gerast fyrir 13. febrúar. Stjórnvöld í Aþenu þurfa að standa skil á lánum upp á 14,5 milljarða evra 20. mars næstkomandi.
Samhliða viðræðunum við Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Seðlabankann, hafa stjórnvöld í Grikklandi átt viðræður við fulltrúa fjármálafyrirtækja um niðurfellingu skulda. Þeim verður haldið áfram yfir helgina.