Ekkert útlit er fyrir að veður batni á Ítalíu en sjö hafa dáið vegna frosthörku og snjóþyngsla í landinu síðustu daga. Herinn var kallaður út til að aðstoða við að hreinsa snjó af götum Rómarborgar. Ekki hefur fallið meiri snjór í borginni í 27 ár. Um 60 sentímetra þykkur snjór lá yfir borginni í dag, laugardag.
Ferðamannastaðir eru margir lokaðir, til dæmis hefur ekki verið hægt að heimsækja hið sögufræga Colosseum í tvo daga. Sumir hafa nýtt sér snjóinn og farið á gönguskíðum um borgina.
Þá þurftu björgunarsveitir að koma fólki sem sat fast í bílum og lestum til aðstoðar. Vegna ófærðar hafa allar almenningssamgöngur farið úr skorðum og dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða í lestum í hálfan sólarhring. ´
Langar raðir bíla sitja fastar á vegum til og frá borginni og hefur fólk þurft að bíða í bílum sínum í fleiri klukkutíma eftir að verða mokað út.
Þá varð rafmagnslaust í Flórens í dag og mikið frost. í Feneyjum voru síkin ísilögð.
Spáð er meiri snjókomu á morgun, sunnudag, og enn meira frosti.