Fyrrverandi háttsettur herforingi í her Sýrlands segir að herinn sé við það að hrynja. Einungis um þriðjungur hersins sé i bardagahæfu ástandi, ekki síst vegna þess hversu margir hermenn hafa gerst liðhlaupar. Þá sé siðferðisþrek þeirra hermanna sem eftir eru orðið lítið.
Herforinginn fyrrverandi, Mustafa al-Sheikh, flúði frá Sýrlandi til Tyrklands í nóvember síðastliðinn. Hann segir í viðtali við breska dagblaðið Sunday Telegraph í dag að þá hafi hann talið að sýrlenski herinn gæti haldið út í ár eða meira gegn uppreisnarmönnum í landinu. Síðan þá hafi hins vegar ástandið orðið stöðugt verra fyrir ríkisstjórn Bashars al-Assad.
„Herinn mun hrynja í febrúar,“ segir hann í viðtalinu. Ástæðan sé sú að bæði sé skortur á hermönnum í her Sýrlands og hergögnum. Það sama sé að segja um varahluti í skriðdreka og önnur hernaðartæki.
Stuðningsmenn Assads fögnuðu á götum höfuðborgar Sýrlands í gær þegar fréttir bárust af því að Kína og Rússland hefðu beitt neitunarvaldi gegn því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun vegna ástandsins í Sýrlandi.