Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik fór fram á það í dag að verða tafarlaust látinn laus úr haldi. Hann samþykkir ekki að athæfi hans hinn 22. júlí 2011, þegar hann myrti 77 manns, hafi verið refsivert. Breivik brosti sínu breiðasta til fjölmiðla þegar mál hans var tekið fyrir í réttarsal í dag.
Breivik var færður í réttarsal í þinghúsinu í Ósló kl. 12:35 í dag, handjárnaður í fylgd tveggja lögreglumanna. Hann var klæddur í dökk jakkaföt og ljósa skyrtu og stillti sér upp fyrir ljósmyndara fjölmiðlanna, með handjárnin á lofti. Að sögn verjanda hans, Geirs Lippestad, átti handahreyfingin að vera nokkurs konar „öfga-hægri-kveðja“. Breivik sagði ekkert við fjölmiðla en brosti stöðugt á meðan teknar voru af honum myndir.
„Ég játa að hafa gert þetta, en ég viðurkenni ekkert refsivert og í því samhengi óska ég eftir því að fá að útskýra hvers vegna ég viðurkenni ekkert refsivert. Svo ef ég mætti fá eina mínútu mæti ég það mikils. Er það í lagi?“ spurði fjöldamorðinginn í réttarsalnum. Dómarinn, Elisabeth Gjelsten, samþykkti það að því gefnu að það kæmi málinu við.
Hlógu að yfirlýsingum hans
„Ég er herskár þjóðernissinni í Knights Templar-riddarareglunni. Við, norska andspyrnuhreyfingin, munum ekki sitja þögul undir því að verða minnihluti í okkar eigin landi,“ sagði Breivik þá, að sögn Aftenposten. Norska lögreglan er hins vegar á því, eftir ítarlega rannsókn, að riddarareglan Knights Templar sé ekki til. Sumir sem sátu á áhorfendabekkjunum hlógu að yfirlýsingum Breivik.
„Ég brást við í nauðvörn fyrir hönd fólksins míns, lands og menningar,“ bætti Breivik við áður en dómarinn stöðvaði hann. Hann sagðist ekki samþykkja fangelsisvist og krafðist þess að verða tafarlaust látinn laus úr haldi.
Fyrirtakan yfir Breivik í dag var sú síðasta áður en sjálf réttarhöldin hefjast hinn 16. apríl. 103 eftirlifendur og aðstandendur voru viðstaddir ásamt 23 lögmönnum. Þá voru 63 fréttamenn í salnum að sögn Aftenposten, m.a. frá erlendum miðlum s.s. BBC, Der Spiegel, Radio France, Bloomberg, Afp og Reuters.
Lögreglan fór fram á að gæsluvarðhald yfir honum yrði framlengt um 12 vikur. Dómarinn mun kveða upp úrskurð sinn kl. 13:30 í dag að íslenskum tíma.