Hópur kaupmanna í bresku borginni Bristol hefur ákveðið að gefa út eigin gjaldmiðil í samstarfi við borgarstjórnina og sparisjóð sem þar hefur aðsetur. Yfir eitt hundrað fyrirtæki í borginni hafa þegar samþykkt að taka þátt í gjaldmiðlinum og taka við honum sem greiðslu fyrir vöru og þjónustu.
Gjaldmiðillinn hefur fengið nafnið „Bristol Pound“, sem mætti kalla bristolskt pund, að sögn fréttavefjar breska ríkisútvarpsins BBC og verður eitt slíkt pund jafnmikils virði og eitt breskt pund. Bæði verða gefnir út seðlar sem fólk getur notað og ennfremur verður hægt að nota gjaldmiðilinn rafrænt.
Hugmyndin með gjaldmiðlinum er sá að tryggja að umrætt fjármagn haldist innan borgarinnar en fari ekki til breska ríkisins og verði þar með notað í verkefni sem ekki gagnast íbúum borgarinnar.