Forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, hefur varað við því að forseti Palestíníu, Mahmud Abbas, yfirgefi friðarsamkomulag þjóðanna, ef hann efnir það samkomulag sem hann gerði við Hamas-samtökin í dag.
Netanyahu gaf þessa viðvörun út stuttu eftir að Abbas og foringi Hamas, Khaled Meshaal, undirrituðu samkomulag í Qatar þess efnis að Abbas mundi koma fram sem yfirmaður bráðabirgðastjórnar landsins fram að þingkosningunum sem fara fram síðar á þessu ári.
„Ef Abu Mazen (Abbas) gengur að því sem hann skrifaði undir í Doha, hefur hann kosið að yfirgefa friðarsamkomulagið og ganga til liðs við Hamas,“ sagði Netanyahu í yfirlýsingu í dag.
Doha samkomulagið er gert til að leysa úr ágreiningi Fatah og Hamas sem hafa frá því í apríl ekki getað komið sér saman um bráðabirgðasamsteypustjórn fram að kosningum á þessu ári.
Ísraelstjórn hefur látið í ljós skýra andstöðu sína við samkomulagið og varað Abbas við því að hann geti ekki samið við hryðjuverkasamtökin Hamas, sem í dag stjórna Gaza-svæðinu, á sama tíma og hann stendur í samningaviðræðum við stjórnvöld í Ísrael.
„Ég hef mörgum sinnum áður sagt að palestínsk stjórnvöld verði að velja á milli þess að vinna með Hamas eða að vinna að friði við Ísrael. Hamas og friður ganga ekki upp saman,“ sagði forsætisráðherra Ísraels í dag.
„Ég segi við Abu Mezen (Abbas): Þú getur ekki haldið í báða enda spýtunnar. Það er annaðhvort friður við Hamas eða friður við Ísrael. Þú færð ekki hvort tveggja,“ bætti forsætisráðherrann við í yfirlýsingu sinni.