Íbúar Amsterdam geta nú farið á skautum um skipaskurði borgarinnar í fyrsta skipti í tvö ár, þökk sé kuldakastinu mikla sem nú gengur yfir Evrópu. Kuldinn á því sínar björtu hliðar, en hann hefur víða valdið vandræðum, m.a. í Króatíu þar sem víða er rafmagnslaust og samgöngur í lamasessi.
Hundruð Evrópubúa hafa látist vegna kuldanna í Austur-Evrópu. Í Rúmeníu bætti í kuldann í gær eftir smáhlé, en þar byrjaði frostið fyrst að bíta fyrir um tíu dögum. Tugum vega hefur verið lokað, en í höfuðborginni Búkarest reyna íbúar enn að komast til vinnu á bílum sínum.
Á Ítalíu hefur snjóað og er tíðin þar afar óvenjuleg. Benedikt Páfi sagðist í gær vonast eftir betri tíð. „Snjórinn er fallegur en við skulum vona að vorið komi brátt.“ Engu að síður er fátt sem bendir til þess að vorið sé á næsta leiti á meginlandinu, þar sem spáð er áframhaldandi vetrarhörkum.