Kínverjar neita að vera með

Kínverjar neita að greiða kolefnisskatta vegna flugumferðar í samræmi við …
Kínverjar neita að greiða kolefnisskatta vegna flugumferðar í samræmi við kolefnisáætlun ESB. Áætlunin tók gildi 1. janúar sl. Myndin er úr safni. reuters

Kínversk stjórnvöld hafa bannað þarlendum flugfélögum að taka þátt í að hækka kolefnisgjöld á flug í samræmi við kolefnisáætlun Evrópusambandsins. Indverjar, Rússar og Bandaríkjamenn mótmæla einnig.

Stjórnvöld í Peking hafa ítrekað lýst sig andsnúin kolefnisáætlun ESB, sem tók gildi 1. janúar á þessu ári. Ríkisfjölmiðlar í Kína hafa einnig varað við því að áætlunin leiði til viðskiptastríðs í flugi.

Í yfirlýsingu á heimasíðu ríkisstjórnar Kína segir að þarlendum flugfélögum sé óheimilt að nota losunarheimildirnar til að hækka fargjöld eða önnur gjöld á farþega.

„Kínverska flugmálastjórnin gaf nýlega út tilskipun til kínverskra flugfélaga um að þeim væri með öllu óheimilt, án samþykkis stjórnvalda, að taka þátt í kolefnisáætlun ESB,“ sagði í yfirlýsingunni.

Sendiherra Evrópusambandsins í Kína sagðist vonast til að ágreiningurinn yrði leystur á fundi sem áætlaður er í næstu viku á milli fulltrúa ESB og stjórnvalda í Beijing með samningaviðræðum.

„Það eru margar leiðir til í þeim efnum, tvíhliða, marghliða eða lagalegir samningar,“ sagði Markus Ederer sendiherra við blaðamenn í Peking.

„Evrópusambandið myndi vilja leysa þetta eftir alþjóðlegum leiðum ... Það er leiðin fram á við, í gegnum samningaviðræður, að finna samkomulag á milli hagsmunaaðila.“

Óttast að kostnaður á flug muni stóraukast á næstu árum

Stjórnvöld í Kína hafa sagt að þau óttist að flugreksturinn þurfi að borga allt að 800 milljón juan (125 milljón Bandaríkjadali) á ári fyrir flugvélar sem fljúga um eða lenda í Evrópu og að sá kostnaður kunni að fjórfaldast fyrir árið 2020.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur að álagður kostnaður á flug vegna kolefnisgjaldanna sé viðráðanlegur og hefur gefið út að á flugferðir báðar leiðir muni bætast á bilinu 4-24 evrur.

Hvað sem því líður hafa sum flugfélög þegar hækkað fargjöld vegna nýju Evrópureglnanna. Bandaríska félagið Delta Air Lines hefur hækkað flugmiða sína, báðar leiðir, um sex bandaríkjadali á flugi milli Bandaríkjanna og Evrópu.

Þýska félagið Lufthansa hefur gefið til kynna að það muni hækka eldsneytisgjöld sín líkt og belgíska félagið Brussel Airlines hefur þegar gert og nemur sú hækkun á bilinu 10-135 evrum á alþjóðaflugi, en um 39 evrum á flugi innan Evrópusambandsins.

Flugfélög hafa gagnrýnt þetta nýja kerfi og sagt það vera nýja skattlagningu. Þau hafa varað við því að þetta muni auka kostnað við flugreksturinn um 17,5 milljarða evra á átta ára tímabili.

Athygli vekur að kolefnisáætlun ESB skuli hafa farið í gegn þrátt fyrir mótmæli Bandaríkjanna, sem vildu fá henni frestað.

Samtök bandarískra flugfélaga hafa sagst munu fylgja þessum nýju Evrópulögum, en hafa mótmælt þeim og tilkynnt að þau muni skoða lagalega fleti málsins

Kínversku flugumferðarsamtökin, sem koma fram fyrir hönd þarlendra flugfélaga, sögðu í síðasta mánuði að stjórnvöld væru að huga að mótvægisaðgerðum gegn kolefnisáætluninni, en gáfu engar frekari skýringar.

Þau segja að kolefnisgjaldið muni hafa áhrif á öll stóru kínversku félögin, sem þó hafa ekki viljað tjá sig um málið við fréttastofur.

Ederer sagði að Evrópusambandið væri reiðubúið að slá af kolefnisgjöldum hjá flugfélögum þar sem viðkomandi heimaland myndi á móti taka upp sambærileg kolefnisgjöld á eigin flugrekstur.

Ólíklegt er að beitt verði refsingum gegn kínverskum stjórnvöld á næstunni, þar sem flugfélög hafa tíma til 30. apríl til að reikna út áætlaða losun kolefnis og kaupa sér kolefniskvóta í samræmi við það.

„Það er óvíst hvort Evrópusambandið getur komið þessu í framkvæmd, miðað við andstöðu víða um heim,“ sagði Luo Yanyan, kínverskur sérfræðingur.

„En til lengri tíma litið, ef Evrópusambandið heldur áætlun sinni til streitu, gætu kínversk flugfélög verið undir pressu og neyðst til að gefa eftir, þar sem ólíklegt er að þau muni vilja gefa eftir viðskipti sín í Evrópu.“

Evrópusambandið hóf árið 2005 að reyna að draga úr kolefnislosun í raforkuframleiðslu sinni og stóriðju. Það ákvað svo að taka inn í þessar áætlanir flugumferðina, sem í dag veldur um 3% af heildarlosun í heiminum. Allt þetta er svo hluti af stærra samhengi og alþjóðasamningum sem miða að því að draga úr losun kolefnis.

Þá hefur verið sagt að þau flugfélög sem neiti að taka þátt í kolefnisáætluninni verði sektuð eða meinað um lendingarleyfi í öllum 27 ríkjum Evrópusambandsins.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína. Forystumenn …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína. Forystumenn ESB og Kína munu funda í næstu viku. POOL
Við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. Ljósmynd/JPlogan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert