Íbúar Mílanó voru kaldnefjaðir í morgun enda vöknuðu þeir upp við -10 stiga frost. Rafmagnslaust er á 59.000 heimilum á Ítalíu og hafa yfirvöld lýst yfir neyðarástandi vegna skorts á gasi.
„Ástandið er sannarlega slæmt, því gasflæðið frá Rússlandi og Frakklandi hefur minnkað, en við fylgjumst náið með þróun mála,“ sagði ráðherra efnahags- og þróunarmála á Ítalíu, Corrado Passera, við fréttamenn í dag.
Kuldaköst sem þessi eru afar fátíð á Ítalíu og kom frostið því aftan að mörgum. Að minnsta kosti 17 eru látnir vegna kuldans, þar af þrír heimilislausir sem fundust á lestarstöð í höfuðborginni Róm, og í sjávarþorpinu Ostia.
Snjókoma var í Napólí í morgun og ófært er til nokkurra þorpa í útjaðri Rómaborgar. Þar er verið að setja upp súpueldhús til að bregðast við matarskorti vegna rafmagnsleysis. Í héraðinu Abruzzo var neyðarástandi lýst yfir og sendir 530 hermenn ásamt 90 snjóruðningsvélum.
Yfirvöld í þorpunum Siena og Arezzo í Toskana-héraði, þar sem 36.000 heimili hafa verið án rafmagns dögum saman, segjast íhuga lögsóknir á hendur rafveitunni Enel.