Brotthvarf Grikklands breytir ekki öllu

Neelie Kroes varaforseti framkvæmdastjórnar ESB
Neelie Kroes varaforseti framkvæmdastjórnar ESB Reuters

Brotthvarf Grikklands af evrusvæðinu myndi ekki hafa úrslitaþýðingu fyrir framtíð evrunnar, segir Neelie Kroes, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

„Það er ekki lestarslys þó svo einhver yfirgefi evrusvæðið,“ segir Kroes í samtali við hollenska dagblaðið De Volkskrant í dag en tekur fram að hún vilji ekki að Grikkir taki upp drökmu að nýju sem gjaldmiðil í stað evrunnar.

„Því hefur verið haldið fram að ef einu ríki verður leyft að yfirgefa, eða sagt að yfirgefa (evrusvæðið) muni uppbygging kerfisins öll riðlast. Það er einfaldlega ekki rétt,“ segir Kroes.

Kroes sakar grísk stjórnvöld um að sýna ekki nægjan vilja til þess að leysa skuldavandann og segir það viðtekið hjá Grikkjum að segja: „Við getum ekki, við viljum ekki.“ Ekki sé nein trygging fyrir því að Grikkland sé á réttri leið og þær aðgerðir sem grísk stjórnvöld séu reiðubúin að leggja á sig séu alls ekki nægjanlegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert