Mörg hundruð tölvupóstum frá skrifstofu Bashars al-Assads, forseta Sýrlands, hefur verið lekið til fjölmiðla. Í þeim kemur m.a. fram hvernig hægt væri að hafa áhrif á fjölmiðla í Bandaríkjunum, en forsetinn fór í desember í viðtal á ABC-sjónvarpsstöðinni.
Það voru tölvuhakkarar sem kalla sig Anonymous sem komst yfir tölvupóstana. Það virðist ekki hafa verið erfitt því sumir embættismenn notuðu lykilorðið „12345“.
Meðal tölvupóstanna er langur póstur sem Sheherazad Jaafari, fulltrúi Sýrlands hjá Sameinuðu þjóðunum, sendi til Luna Chebel, sem er fyrrverandi blaðamaður á Al Jazeera og núverandi starfsmaður á skrifstofu Assads. Pósturinn var sendur 10 dögum áður en Assad forseti fór í viðtal við Barböru Walters, fréttamann á ABC-sjónvarpsstöðinni.
Viðtalið við Walters þótti mörgum einkennilegt, en í því harðneitaði Assad að sýrlensk stjórnvöld stæðu að drápum á óbreyttum borgurum. Hann sagði að engin ríkisstjórn í heiminum dræpi fólk nema leiðtogi landsins væri brjálaður.
Í tölvupóstinum segir Jaafari að margar fréttir hafi birst í bandarískum fjölmiðlum um að sýrlenski herinn sé að drepa óbreytta íbúa. Hún segir mikilvægt að fram komi að mistök hafi verið gerð þegar mótmælin voru að hefjast og lögreglan var ekki eins skipulögð og í dag.
Jaafari segir að það sé auðvelt að fá bandarískan almenning til að trúa því að mistök hafi verið gerð og verið sé að laga það sem fór úrskeiðis. Hún segir að forsetinn ætti að benda á mótmælin á Wall Street og þar hafi lögregla beitt hundum og kylfum til að brjóta mótmælin á bak aftur.
Jaafari segir að bandarískir fjölmiðlar séu gagnlegir ef rétt er á málum haldið og minnir á að margir Bandaríkjamenn séu þeirrar skoðunar að Bandaríkin eigi ekki að vera að skipta sér af því hvernig aðrar þjóðir stýri málum hjá sér.
Jaffari mæli einnig með því að Assad segi í viðtalinu við Walters að Bandaríkjamenn hafi skipulagt pyntingar á föngum í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak og þeir reki skóla þar sem lögreglumönnum sé kennt hvernig eigi að pynta fanga.