Stjórnvöld í Argentínu hyggjast kvarta formlega við Sameinuðu þjóðarnar vegna þess sem þau kalla hervæðingu Breta við Falklandseyjar. Þetta staðfesti Cristina Kirchner, forseti landsins, í gær, þriðjudag. Kvartanir verða sendar öryggisráði og allsherjarþingi SÞ.
Kirchner sagði heræfingar Breta við eyjarnar að undanförnu ógna alþjóðlegu öryggi. Spenna hefur verið í samskiptum ríkjanna síðan tilkynnt var um för Vilhjálms Bretaprins, sem nú er staddur við eyjarnar, og ekki hjálpaði að fyrr tilkynntu Bretar að þeir hygðust senda herskip af fullkomnustu gerð í jómfrúferð sína til eyjanna.
Meðal þess sem kom illa við Argentínumenn er að Vilhjálmur er við eyjarnar sem almennur hermaður, og því klæddur sem slíkur.
Hundruð íbúa Falklandseyja mótmæltu á meðan Kirchner hélt ræðu sína. Fólk veifaði argentínska fánanum og hrópaði slagorð. Öll voru þau á þá leið að Falklandseyjar ættu að tilheyra Argentínu.
Ágreiningur um fullveldi eyjanna hefur aukist á síðustu misserum en brátt verða 30 ár liðin frá því að Falklandseyjastríðið á milli Bretlands og Argentínu hófst. Eyjarnar hafa tilheyrt Bretum frá árinu 1833, þótt Argentína geri tilkall til þeirra.