Ef Skotland verður sjálfstætt ríki mun það ekki taka upp evru sem gjaldmiðil sinn í fyrirsjáanlegri framtíð að sögn Nicola Sturgeon, varaforsætisráðherra heimastjórnar landsins, í samtali við fréttavefinn Euobserver.com. Þess í stað myndu Skotar halda í breska pundið.
„Við höfum sagt að við ætlum að halda okkur við breska pundið. Stefna okkar er að taka ekki upp evruna fyrr en efnahagslegar aðstæður eru réttar og skoska þjóðin hefur samþykkt það í þjóðaratkvæði. Í ljósi efnahagskrísunnar á evrusvæðinu í augnablikinu þá er mjög ólíklegt að við töku upp evruna í fyrirsjáanlegri framtíð. Þar til við tökum aðra ákvörðun er stefna okkar að halda í breska pundið. Við teljum að það sé það rétta fyrir Skotland, það veitir okkur þann stöðugleika sem við þurfum á að halda til þess að auka hagvöxt og hefur einnig jákvæð áhrif fyrir aðrar hluta Bretlands,“ sagði Sturgeon.
Þó skoðanakannanir væru misvísandi um stuðning við sjálfstætt Skotland sagðist hún sannfærð um að niðurstaða þjóðaratkvæðis, sem fyrirhugað er árið 2014, yrði sú að landið yrði sjálfstætt. Hún sagði ennfremur að Skotland væri hluti af Evrópusambandinu og yrði það áfram þó landið segði skilið við breska konungdæmið.