Norska lögreglan hefur rannsakað tölvu- og netnotkun norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breiviks. Rannsóknin hefur leitt í ljós að á tímabilinu nóvember 2010 til febrúar 2011 spilaði hann tölvuleikinn World of Warcraft í 500 klukkustundir. Á sama tíma var hann að skipuleggja voðaverk sín.
En Breivik varði þó talsvert meiri tíma í tölvuleiki, því hann lék einnig ýmsa aðra leiki á borð við Modern Warfare, Elder scrolls, Dragon Age og Warhammer.
„Tólf klukkustunda tölvuleikjanotkun á degi hverjum er svo skaðleg, að flest fólk myndi líklega kalla það fíkn,“ segir Hans Olav Fekjær, sem er sálfræðingur og yfirlæknir í Noregi í samtali við vefsíðu norska dagblaðsins Aftenposten.
Af stefnuyfirlýsingu Breiviks, sem birt var á Netinu, má skilja að tölvuspilin voru ekkert annað en skálkaskjól til að geta skipulagt hryðjuverk og að hann hafi varið heilu ári í tölvuleikjanotkun, 2004-2005, í að verðlauna sjálfan sig, en ekki kemur fram fyrir hvað það var.
En lögregla hefur komist að því að tölvuleikjanotkun Breiviks tók stóran hluta tíma hans frá 2006 til 2010.
Breivik byrjaði að spila World of Warcraft árið 2006, þegar hann flutti heim til móður sinnar eftir að fyrirtæki hans hafði orðið gjaldþrota. Þá var hann 27 ára. Persóna hans í leiknum var kona. Hann varð fljótt afar hrifinn af leiknum og varði nánast öllum sínum tíma í hann næstu árin.
Lögregla hefur unnið að því að komast að, hverja Breivik hafði samband við í gegnum leikinn. Það er þó hægara sagt en gert, því að svo virðist sem hann hafi oft leikið leikinn í tveimur tölvum samtímis og spilarar koma alls staðar að úr heiminum.
Þeir, sem þekktu til Breiviks, segja að hann hafi byrjað að haga sér undarlega þegar hann varð svona heltekinn af tölvuleikjum.