Grikkir vongóðir um björgun

Verðbréfahöllin í Aþenu.
Verðbréfahöllin í Aþenu. Reuters

Fjármálaráðherra Grikklands heldur til Brussel í dag til fundar við kollega sína á evrusvæðinu. Hann segist vongóður um að „jákvæð ákvörðun“ verði tekin um björgunarpakka. Ríkisstjórn Grikklands tókst ekki að ná samkomulagi um aðgerðir á ríkisfjármálum þrátt fyrir fundhöld fram á nótt.

Lucas Papademos forsætisráðherra Grikklands tókst ekki að tryggja stuðning samsteypustjórnar sinnar um niðurskurð til að tryggja nýja björgunaráætlun, þrátt fyrir sjö klukkustunda langan fundi í gærkvöldi. Viðræðurnar strönduðu fyrst og fremst á ósætti um niðurskurð lífeyrisgreiðslna. Gríðarlegur þrýstingur mun hafa verið á gríska ráðherraliðið fyrir fundinn að hafna aðgerðunum, að sögn BBC.

Fjármálaráðherrann Evangelos Venizelos hélt þó í vonina áður en hann lagði af stað til höfuðstöðva Evrópusambandsins„Ég held nú til Brussel í þeirri von að evruhópurinn taki jákvæða ákvörðun um nýja björgunaráætlun,“ sagði Venizelos sem fundar með öðrum fjármálaráðherrum evrusvæðisins síðar í dag.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið hefur sett Grikkjum skilyrði sem þeir þurfi að fullyrða til að leysa út 130 milljarða evru lánapakka til að rétta fjárhag landsins af. Áætlað var að greiða lánið út í mars en fyrst þarf ríkisstjórnin að ná fram 600 milljóna evru sparnaði. Þær kröfur hafa leitt til áframhaldandi mótmæla almennings í landinu.

Horft er til lífeyrisgreiðslna í því sambandi, en einnig eru ráðgerðar 20% launalækkanir og uppsagnir um 15.000 opinberra starsfmanna. Fregnir herma að fulltrúar hinna samsteypuflokkanna hafi fyrst fengið tillögurnar í hendur á miðvikudagsmorgni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert