Slóvakar styðja Grikki ekki frekar

Ivan Miklos fjármálaráðherra Slóvakíu.
Ivan Miklos fjármálaráðherra Slóvakíu. Reuters

Slóvakar hafna því að veita Grikkjum frekari fjárhagsaðstoð, umfram 130 milljarða evra  björgunarpakkann sem grísk stjórnvöld reyna nú að tryggja sér. Fjármálaráðherra segir að frekari aðstoð þurfi að koma úr einkageiranum.

„Við viljum ekki að meira verði veitt af almannafé umfram þessar 130 milljarða evra sem við höfum þegar samþykkt. Við viljum að frekari fjárveitinga verði safnað með þátttöku einkageirans,“ sagði fjármálaráðherrann, Ivan Miklos, á blaðamannafundi í Bratislava í dag. Fjármálaráðherrar evrusvæðisins munu funda síðdegis í dag í Brussel um gríska björgunarpakkann.

„Við viljum líka að Grikkland hefji aðgerðir til að gera opinberar skuldir ríkisins þolanlegar, 120% af vergri landsframleiðslu eða þar um bil,“ sagði Miklos og bætti við að það krefðist harðra aðgerða en líka endurbóta á kerfinu til að auka hagvöxt. „Loforð og yfirlýsingar eru ekki nóg, við búumst við skýrum aðgerðum sem gríska þingið þarf að samþykkja.“ Eini annar kosturinn í stöðunni sé gjaldþrot gríska ríkisins.

Slóvakar gengu í Evrópusambandið 2004 og tóku upp evruna 2009. Þeir hafa ítrekað lýst óánægju sinni með björgunaraðgerðir evrulandanna 17 og var eina aðildarríkið sem neitað að taka þátt í fyrsta björgunarpakkanum til Grikkja árið 2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert