Dönsk ungmenni vilja ekki í sturtu

Almenningssturtur
Almenningssturtur Reuters

Mörg ungmenni í Danmörku sleppa því að fara í sturtu eftir skólaíþróttir vegna þess að þau vilja ekki að skólafélagar þeirra sjái þau nakin. Ungmennin eru sögð mjög meðvituð um eigin líkama  og mörg þeirra eru svo ósátt við sjálf sig að þau vilja alls ekki fara í almenningssturtur.

Frá þessu segir Jyllands Posten í dag, en haft er eftir íþróttakennurum og öðru fólki sem vinnur með ungmennum að það sé vaxandi vandamál að ungmenni velji frekar að sleppa því að baða sig eða skrópi í íþróttum en að þurfa að afhjúpa líkama sinn fyrir jafnöldrum sínum.

Rannsókn sem Steno safnið í Árósum framkvæmdi meðal 800 ungmenna í tengslum við líkamsmenningu leiddi í ljós að 30% elstu nemenda í grunnskólum fyndist mjög erfitt að þvo sér innan um aðra. Þá sýnir könnun sem gerð var af miðstöð um ungmennarannsóknir í fyrra meðal yfir 1.200 nemenda í 7. til 9. bekk að 15% danskra stúlkna taka aldrei þátt í íþróttum, hvorki á skólatíma né eftir, vegna þess að þeim finnst óþægilegt að fara í sturtu.

Fleiri stelpur en strákar forðast almenningssturturnar, en hegðunin gerir þó vart við sig hjá báðum kynjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka