Grikkjum sett hörð skilyrði

Fánar Grikklands og Evrópusambandsins flökta á þaki fjármálaráðuneytisins við Akrópólis …
Fánar Grikklands og Evrópusambandsins flökta á þaki fjármálaráðuneytisins við Akrópólis í Aþenu. Reuters

Fjármálaráðherrar evrusvæðisins hafa sett Grikkjum ný og harðari skilyrði fyrir því að fá greiddan út 130 milljarða evra björgunarpakka. Ráðherrarnir funduðu fram á kvöld í gær. Grísk stéttarfélög hafa boðað verkföll í mótmælaskyni.

Formaður fundarins, Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, sagði að gríska þingið þyrfti nú að samþykkja pakka með ákveðnum niðurskurðar- og hagræðingaraðgerðum. Til viðbótar þurfi að auka sparnað ríkiskassans um 325 milljónir evra árið 2012.

Juncker sagði einnig að Grikkir yrðu að gefa traust, pólitískt loforð fyrir því að þeir muni halda áfram að vinna að hagræðingu eftir kosningar í landinu í apríl. Fjármálaráðherrar evrusvæðisins munu funda aftur á miðvikudaginn í næstu viku og þarf gríska þingið að afgreiða og samþykkja skilyrðin fyrir þann tíma, að sögn BBC.

Þá segir Olli Rehn, sem fer með efnahagsmál í stjórn Evrópusambandsins, að lönd evrusvæðisins „íhugi alvarlega“ að stofna sérstakan, aðskilinn reikning fyrir Grikkland sem haldi eftir hluta af tekjum gríska ríkisins til að tryggja endurgreiðslu lánanna. Fréttaritari BBC í Brussel segir að í ljósi þess að efnahagur Grikklands er enn á niðurleið hafi margir ráðherrar Evrópu áhyggjur af því að björgunaráætlunin dugi enn ekki til að koma landinu á réttan kjöl.

Allsherjarverkfall mun að óbreyttu hefjast í Grikklandi á föstudaginn, að boðun grískra stéttarfélaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka