Kennari hældi Breivik á Facebook

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik.
Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik. Reuters

Norskur grunnskólakennari hefur verið sendur í tímabundið leyfi eftir að hann skrifaði stöðufærslu á Facebook um norska fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik. Kennarinn segist hafa verið að gera að gamni sínu og segir viðbrögðin gróft brot á tjáningarfrelsi.

„Ég vona að Verkamannaflokkurinn sendi ungliða sína út í Útey í ár og að það verði góð veiðiskilyrði þar úti,“ skrifaði kennarinn á Facebook-síðu sína. Foreldrar barna í skóla kennarans, sem er í Ringsaker, eru ósáttir við að hann skuli fá að halda starfi sínu. 

Þetta er ekki í eina skiptið sem skrif kennarans á Facebook hafa þótt óviðeigandi. Hann hrósaði útliti og framkomu Anders Behring Breiviks, eftir að myndir af honum í réttarsal birtust í byrjun vikunnar.

„Þetta er bara hreinræktuð gamansemi,“ sagði kennarinn í samtali við vefsíðu norska dagblaðsins Aftenposten. Spurður að því hvort skrifin lýstu skoðunum hans svaraði hann að það ætti að liggja ljóst fyrir. „Ég hef skilning á því að einhver taki þetta nærri sér, en það er bara hluti af húmornum. Það eykur á skemmtunina þegar fólk lætur hlutina fara í taugarnar á sér.“

Spurður að því hvort hann hafi í hyggju að skrifa áfram á þessum nótum svaraði kennarinn því til að hann væri ekki búinn að ákveða neitt með það.

Þegar Aftenposten spurði hann hvort þessi skrif væru þess virði að hann missti starfið sagði hann að verndun tjáningarfrelsisins væri þess virði. „Ég læt ekki kúga mig. Þó að einhver skilgreini þetta sem vandamál, þá geta kennarar ekki fórnað öllu sínu lífi bara fyrir starfið. Ég er ekki kennari 24 tíma á sólarhring. Það þarf að vera hægt að greina á milli starfsins og einkalífs fólks.“

Nýlega komust skólayfirvöld í Ringsaker á snoðir um að kennarinn býr til kvikmyndir sem sýna ofbeldi og nauðganir í frítíma sínum og foreldrar eru ósáttir við að hann skulil starfa við kennslu barnanna þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert