„Það er aðeins ein leið til þess að túlka nýjar kröfur frá fjármálaráðherrum evrusvæðisins í gærkvöldi fyrir því að samþykkja nýjan 130 milljarða evra björgunarpakka fyrir Grikkland. Það er að þeir séu núna viljandi að reyna að koma Grikkjum út af svæðinu,“ segir Jeremy Warner, aðstoðarritstjóri breska dagblaðsins Daily Telegraph, á vef blaðsins í dag og bætir því við að öll látalæti um samstöðu hafi nú verið látin lönd og leið.
Warner segir auðvelt að gera sér í hugarlund hvers vegna þolinmæði fjármálaráðherranna sé á þrotum. Grísk stjórnvöld hafi ítrekað haldið áfram að gefa loforð um að grípa til efnahagsaðgerða sem þeir hafi ekki getað staðið við. „Í dag eru loforð þeirra minna virði en nokkurn tímann þar sem stuðningur við stjórnmálaflokkana sem eru að gefa þau hefur hrunið.“
Hann segir ljóst að eins og málin hafi þróast verði allir þeir flokkar sem mynda núverandi samsteypustjórn Grikklands látnir taka pokann sinn í næstu þingkosningum og í þeirra stað verði kosnir stjórnmálamenn sem beiti fyrir sig lýðskrumi og eru óbundnir af því sem núverandi stjórnarflokkar hafi samþykkt. Jafnvel þó kröfur fjármálaráðherra evruríkjanna verði samþykktar séu engar líkur á að hægt verði að uppfylla þær.
„Það sem meira er þá er eina rétta nálgunin að ýta Grikklandi út. Það eru núna engar líkur á því að landið geti lifað af innan evrusvæðisins. Landið er að að hrynja efnahagslega og stjórnmálalega,“ segir Warner. „Enginn með réttu ráði myndi fjárfesta á Grikklandi akkúrat núna vitandi að landið gæti hvenær sem er yfirgefið evruna yfir nótt og þeir myndu þar með tapa tveimur þriðju af peningunum sínum.“
Warner segir að efnaðir Grikkir líti málið sömu augum. Þeir séu allir að koma fjármunum sínum út úr Grikklandi eins hratt og þeir geti. Þeir séu meðal annars að fjárfesta með þeim á breska húsnæðismarkaðinum. Þetta sé skammarlegt en algerlega rökrétt viðbrögð í ljósi þess að gengi evrunnar sé stórkostlega ofmetið.
„Grikkland hefur fáa aðra möguleika núna en að koma á gjaldeyrishöftum og yfirgefa evruna. Því lengur sem landið bíður með það því verri verður staða þess,“ segir Warner að lokum.