Segja al-Qaeda bera ábyrgð í Sýrlandi

Ungir drengir vopnaðir byssum og sprengjum sjást á al-Qaeda æfingu.
Ungir drengir vopnaðir byssum og sprengjum sjást á al-Qaeda æfingu. AP

Íraskir al-Qaeda-liðar eru sagðir bera ábyrgð á tveimur sprengjum sem nýlega sprungu í borginni Damaskus í Sýrlandi. Að auki eru samtökin talin vera ábyrg fyrir sprengjunum tveimur sem sprungu  í sýrlensku borginni Aleppo í gær með þeim afleiðingum að 28 létu lífið. Þetta staðhæfa bandarískir embættismenn.

Þetta rennir stoðum undir þær fullyrðingar Assads Sýrlandsforseta að al-Qaeda hafi átt þátt í mótmælunum í landinu. Sýrlenskir uppreisnarmenn hafa staðhæft að stjórn Assads hafi komið sprengjunum fyrir í Aleppo til að kasta rýrð á hreyfingu mótmælenda.

AFP-fréttastofan segir að bandaríska leyniþjónustan telji að Ayman al-Zawahiri, sem tók við forystu al-Qaeda eftir fráfall Osama bin Laden, hafi fyrirskipað árásirnar. Ennfremur telur leyniþjónustan að samtökin hafi tekið þátt í átökunum í Sýrlandi um nokkurt skeið og ýtt þannig undir blóðsúthellingar.

Þetta mun vera í fyrsta skipti sem íraskir al-Qaeda-liðar fremja hryðjuverk utan síns heimalands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert