45 byggingar brunnu

Hópur fólks kom saman við Attikon-bíóið í Aþenu í kvöld.
Hópur fólks kom saman við Attikon-bíóið í Aþenu í kvöld. Reuters

Stjórnvöld í Aþenu segir að 45 byggingar hafi verið eyðilagðar í dag og í gær þegar fólk mótmælti niðurskurðartillögum grísku stjórnarinnar. Eitt helsta bíóhús borgarinnar er rústir einar.

„Hér hefur menningin verið eyðilögð,“ sagði Nikos Kavoukidis kvikmyndagerðarmaður þegar hann horfði á það sem einu sinni var Attikon-bíóið í Aþenu. „Hvað eigum við eftir? Sjónvarp og fótbolta.“

Attikon-bíóið var í byggingu frá 19. öld sem byggð var í klassískum stíl. Um 150 manns komu saman til þögulla mótmæla í dag til að mótmæla skemmdarverkunum. Verið er að skipuleggja mótmæli á fésbók.

Ráðherra lögreglumála í Grikklandi segir að lögreglan hafi þurft að takast á við gríðarlega stórt og erfitt verkefni í gær og í dag. Ráðist var á opinberar byggingar, fyrirtæki, banka, bókabúðir og verslanir um alla borg.

Gríska þingið samþykkti um helgina niðurskurðaráætlanir stjórnvalda. Alls greiddu 199 þingmenn atkvæði með niðurskurðinum en 74 greiddu atkvæði gegn breytingunum. 40 þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið reknir úr flokkum sínum fyrir að styðja ekki niðurskurðarfrumvarpið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert