Olli Rehn, sem fer með efnahagsmál hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, fagnar niðurstöðu gríska þingsins um að samþykkja niðurskurðartillögur stjórnarflokkanna en Rehn er hins vegar ósáttur við viðbrögðin á götum úti í Aþenu í nótt.
Rehn segir að ofbeldið sem braust út í höfuðborg Grikklands í gærkvöldi og nótt í kjölfar atkvæðagreiðslunnar sé óásættanlegt. Einungis brot af grísku þjóðinni taki undir með ofbeldisseggjunum og meirihluti þjóðarinnar hafi áhyggjur af framtíð landsins.
Hann segist vonast til þess að með samþykktinni á gríska þinginu í gær verði hægt að koma fjárhag landsins á rétta braut á ný.