Um tólfti hver Dani verður ekki til við kynmök, heldur við tæknifrjóvganir af ýmsu tagi. Þetta kemur fram í tölum frá dönskum heilbrigðisyfirvöldum. Þar segir að árið 2010 hafi 4.744 dönsk börn fæðst eftir tæknifrjóvgun, en alls voru tæplega 37 þúsund slíkar aðgerðir af ýmsu tagi framkvæmdar, bæði á sjúkrahúsum og á einkastofum.
Á vefsíðu danska dagblaðsins Politiken segir að um 30.000 þessara aðgerða hafi verið framkvæmdar á dönskum konum, en einnig voru gerðar aðgerðir á konum sem komu gagngert í þessum erindagjörðum til Danmerkur. Flestar þeirra komu frá Svíþjóð, Noregi og Bretlandi.
Talsvert meiri líkur eru á tvíburafæðingum við tæknifrjóvgun, eða 10-15%. Venjulega eru líkurnar á því að eignast tvíbura um 2%.