Funda um efnahagskrísuna á evrusvæðinu

Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao.
Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao. Reuters

Leiðtogar Kína og Evrópusambandsins funda í dag í Peking og er búist við að efnahagskrísan á evrusvæðinu verði efst á blaði í viðræðunum. Kínverjar velta því nú fyrir sér að beita sér í auknum mæli fyrir því að reyna að bjarga svæðinu.

Kínversk stjórnvöld hafa ítrekað látið í ljós miklar áhyggjur sínar af stöðu efnahagsmála innan Evrópusambandsins sem er stærsti markaðurinn fyrir kínverskar vörur og hvatt leiðtoga sambandsins til þess að ná tökum á ástandinu.

Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, mun funda í dag með Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, og José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og er talið að auk evrukrísunnar verði rætt um ástandið í Sýrlandi og Íran auk umdeildrar laga sambandsins um kolefnisgjald á flugfélög.

Forystumenn ESB hafa þegar beðið Kínverja, sem búa yfir stærsta gjaldeyrisvarasjóði heimsins, að leggja fjármagn í björgunarsjóði sambandsins sem ætlað er að koma evruríkjum í vanda til hjálpar.

Kínversk stjórnvöld hafa til þess ekki viljað gefa nein loforð í þeim efnum en Wen sagði fyrr í þessum mánuði að Kínverjar væru að velta fyrir sér að koma til hjálpar í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða björgunarsjóði ESB. Hugsanlegt er talið að afstaða Kína muni skýrast á fundinum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert