Tólf ríki Evrópusambandsins eru í hættu að lenda í nýrri efnahagskrísu einkum vegna skuldastöðu þeirra og skorts á samkeppnishæfni samkvæmt nýrri skýrslu á vegum framkvæmdastjórnar sambandsins sem var birt í dag.
Ríkin sem um er að ræða eru Belgía, Búlgaría, Kýpur, Danmörk, Finnland, Frakkland, Ítalía, Ungverjaland, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð og Bretland. Fram kemur í skýrslunni að umrædd ríki þurfi að taka efnahagsmál sín til nánari skoðunar.
Í upphaflegri útgáfu skýrslunnar var staða Ítalíu, Spánar, Ungverjalands og Kýpur sögð sérstaklega knýjandi með tilliti til tíu þátta og þar á meðal húsnæðisverðs, skuldastöðu einstaklinga, skulda hins opinbera og stöðu útflutningsgeirans. En í lokaútgáfu hennar voru öll tólf ríkin sett undir sama hatt þrátt fyrir að staða þeirra sé ekki í öllum tilfellum sú sama.
Fréttavefurinn Euobserver.com greinir frá þessu í kvöld.