Stjórnvöld í Afganistan hafa fyrirskipað kvenkyns fréttalesurum og öðrum konum sem koma fram á þarlendum sjónvarpsstöðvum að bera blæju og minni farða. Þá er lögð áhersla á að þær virði íslömsk og afgönsk gildi í störfum sínum.
„Allar sjónvarpsstöðvar eru í fullri alvöru beðnar að koma í veg fyrir að kvenkyns sjónvarpsfólk birtist í sjónvarpi án blæju og með mikinn farða,“ segir í tilkynningu frá upplýsinga- og menningarmálaráðuneyti landsins.
Fréttaveitan AFP hefur eftir forseta Afganistan, Hamid Karzai, í gær að þessi ákvörðun hafi verið tekin vegna þrýstings frá Ulema-ráðinu sem er æðsta trúarstofnun landsins.