Lambrousi Harikleia er orðin að eins konar táknmynd þess sem er að gerast í Grikklandi, en hún og maður hennar tóku ákvörðun um að henda sér niður úr háhýsi í Aþenu eftir að þeim var sagt upp störfum. Þau hættu á endanum við að taka eigið líf.
Efnahagsástandið í Grikklandi versnar stöðugt og örvænting íbúa landsins vex. Ríkissjóður er skuldum vafinn og getur ekki staðið við skuldbindingar. Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fjármálastofnanir hafa heitið því að aðstoða Grikki og afskrifa yfir helming skulda, en það verður ekki gert án skilyrða.
Skilyrðin snúast m.a. um einkavæðingu ríkisfyrirtækja, fækkun opinberra starfsmanna, lækkun lágmarkslauna og niðurskurð á ríkisútgjöldum.
Lambrousi og eiginmaður hennar hafa starfað hjá stofnun sem séð hefur um leigu á félagslegu húsnæði í Aþenu. Stofnunin er ein þeirra stofnana sem ákveðið hefur verið að leggja niður og því fengu þau bæði uppsagnarbréf. Það er ekki uppörvandi að fá uppsagnarbréf í Grikklandi þessa dagana því atvinnuleysi er yfir 20% og er enn að aukast.
Í stað þess að fara heim með uppsagnarbréfin í vasanum tóku þau þá ákvörðun að stökkva út um glugga á vinnustað sínum. Lögregla og björgunarlið mættu á staðinn og tókst fljótlega að fá manninn til að hætta við að stökkva. Um fimm klukkutíma tók að fá Lambrousi til að hætta við. Fjölmiðlar fylgdust með örvæntingu Lambrousi og tilraunum björgunarliða til að semja við hana
Á síðasta ári kom fram í frétt á Wall Street Journal að um 40% fleiri Grikkir tóku eigið líf á fyrstu fimm mánuði ársins 2011, en á sama tímabili árið 2010.