Forseti Þýskalands segir af sér

Wulff í ávarpi sínu í dag.
Wulff í ávarpi sínu í dag. REUTERS

Forseti Þýskalands, Christian Wulff, tilkynnti í dag að hann myndi stíga úr forsetastól. Í gær lögðu saksóknarar fram beiðni til þýska þingsins um að rjúfa friðhelgi forsetans, sem þurft hefur að glíma við hvert hneykslismálið á fætur öðru í starfi sínu.

„Ég mun ... í dag stíga úr forsetastól til að greiða leiðina í skyndi fyrir arftaka minn í starfi,“ sagði Wulff í sjónvarpsávarpi frá Bellevue-höll.

„Þýskaland þarfnast forseta sem nýtur ekki einungis stuðnings meirihluta, heldur mikils meirihluta borgara. Þróun mála síðustu daga sýnir að traust í minn garð og þar af leiðandi starfsgeta mín hefur beðið skaða. Af þessum sökum get ég ekki sinnt starfi forseta, hvorki innan- né utanlands, sem skyldi.“

Angela Merkel kanslari sagði í ávarpi sínu strax í kjölfarið að hún myndi strax byrja viðræður við alla stjórnmálaflokka og leitast við að finna mögulegan frambjóðanda til að taka við starfi forseta í kjölfar uppsagnar Wulffs.

„Við viljum byrja viðræður í því augnamiði að finna sameiginlegan frambjóðanda til embættis forseta Þýskalands,“ sagði Merkel í stuttu ávarpi. Málefni forsetans þykja mikill höfuðverkur fyrir Merkel, sem berst nú við að leiða Evrópu út úr skuldavanda.

Wulff, sem er 52 ára, hefur átt í miklum vandræðum síðan um miðjan desembermánuð, að mestu vegna ásakana um tengsl hans við efnaða kaupsýslumenn og óvenjulega hagstætt húsnæðislán frá vini eiginkonu hans.

Saksóknarar báðu þýska þingið í gær að rjúfa friðhelgi Wulff svo mögulegt væri að hefja rannsókn á ætlaðri misbeitingu hans á valdi sínu.

Starf forseta í Þýskalandi er að stórum hluta formlegt en er öðrum þræði þýðingarmikið og ekki hefur áður verið lögð fram beiðni um að friðhelgi forseta þar í landi verði rofin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert