Skutu á fólk í jarðarför

Sýrlenskar hersveitir skutu í dag á syrgjendur í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, sem fylgdu ungmennum sem létust í mótmælum í landinu í gær. A.m.k. einn lést í skotárásinni.

Skothríðin átti sér stað á sama tíma og kínversk sendinefnd er í Sýrlandi til viðræðna við stjórnvöld um leiðir til að koma á friði í landinu, en ellefu mánuðir eru síðan mótmæli gegn ríkisstjórn Assads forseta hófust. Ríkisfréttastofa Sýrlands segir að sendinefndin styðji áætlun Assads um breytingar á stjórnarskrá og kosningar.

Boðað hefur verið til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar og þær eiga að fara fram 26. febrúar. Stjórnarandstaðan hefur hvatt fólk til að hunsa kosningarnar.

Þrjú ungmenni voru skotin til bana í gær í kjölfar föstudagsbæna. Jarðarför þeirra fór fram í dag og var hún afar fjölmenn. Eins og gjarnan gerist nota syrgjendur jarðarfarir í Sýrlandi til að koma á framfæri andstöðu við stjórn Assads.

Andstaðan við Assad hefur ekki verið eins hörð í höfuðborginni eins og sumum öðrum hlutum landsins. Þessi fjölmennu mótmæli í Dama0kcus í dag benda til að andstaðan við forsetann sé mikil í höfuðborginni.

Ellefu mánuðir eru síðan mótmæli gegn stjórn Bashar al-Assad hófust.
Ellefu mánuðir eru síðan mótmæli gegn stjórn Bashar al-Assad hófust. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert