Læra af hagsýnum víkingum

Samkvæmt nýrri rannsókn má draga lærdóm af hagsýni og aðlögunarhæfni …
Samkvæmt nýrri rannsókn má draga lærdóm af hagsýni og aðlögunarhæfni víkinga í skugga efnahags- og loftslagsbreytinga. hag / Haraldur Guðjónsson

Á miðöldum fundu Íslendingar vel fyrir efnahagslegum breytingum í Evrópu, hófu að selja fisk og ull, stóðu af sér erfiðar aðstæður og tókst að byggja upp dafnandi nútímasamfélag.

Vísindamenn, undir forystu Andrews Dugmores, prófessors við Háskólann í Edinborg, hafa að undanförnu rannsakað hvernig norrænir menn brugðust við breytingum á efnahag, tækni, í viðskiptum og stjórnmálum í skugga loftslagsbreytinga fyrr á tímum.

Í rannsókninni segir að loftslagsbreytingar, óstöðugt efnahagsástand og menningarlegt umrót séu brýn málefni í nútímasamfélagi en sagan sýni hvernig best sé að bregðast við.

Fram kemur jafnframt að vísindamennirnir hafi rannsakað fornleifar og umhverfi á Grænlandi og á Íslandi og þeim hafi tekist að greina hvernig norrænir menn brugðust við loftlagsbreytingum hvað efnahag, stjórnmál og tækni varðar.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að norrænum samfélögum hafi tekist best að viðhalda sjálfbærni með því að halda möguleikum sínum fjölbreyttum, aðlaga viðskiptatengsl sín, snúa þó baki við tilteknum efnahagslegum möguleikum og afla sér matar með veiði og ræktun.

Í fréttatilkynningu kemur fram að vísindamennirnir telji að niðurstöður þeirra geti komið að gagni við ákvarðanatöku um hvernig nútímasamfélagi beri að bregðast við óvæntum breytingum.

Svo virðist sem vísindamennirnir telji að Íslendingar hafi borið sig rétt að við að takast á við nýjar áskoranir í skugga loftslagsbreytinga. Á hinn bóginn hafi miðaldasamfélög á Grænlandi viðhaldið hefðbundnum viðskiptum víkinga, smám saman orðið afskaplega sérhæfð og breytingar á 15. öld í viðskiptum og loftslagi, ásamt menningarlegum samskiptum við Inúíta, hafi leitt til hruns samfélagsins þar.

Andrew Dugmore kynnti niðurstöðurnar í gær á málþingi, sem bar heitið „Climate Change and the long-term sustainability of societies“, á árlegum fundi American Association for the Advancement of Science í Vancouver í Kanada.

Í fréttatilkynningu er haft eftir honum: „Framtíð okkar mun mótast að hluta til af loftslagsbreytingum og í undirbúningi okkar getum við lært mikilvægar lexíur af því hvernig samfélög í fyrndinni aðlöguðust og jafnvel döfnuðu þrátt fyrir miklar loftslagsbreytingar og erfiðar aðstæður. Einna mikilvægast er jafnframt að við skiljum að blanda af loftslagsbreytingum og annars konar breytingum geti leitt af sér „fullkominn storm“ og sett af stað óvæntar og dramatískar samfélagsbreytingar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert