Neyðarlán verði veitt

Mótmæli í miðborg Aþenu í gærdag.
Mótmæli í miðborg Aþenu í gærdag. Reuter

Franski fjármálaráðherrann, Francois Baroin, sagði í dag að ekkert stæði í vegi fyrir því að fjármálaráðherrar Evópusambandsríkjanna samþykktu seinna neyðarlánið til Grikkja síðar í dag.

„Það er allt til reiðu fyrir samkomulagið,“ sagði Baroin við útvarpsstöðina Europe 1 fyrir fund fjármálaráðherra evruríkjanna, sem hefst klukkan 14:30 í Brussel, þar sem neyðarlán að andvirði 130 milljarða evra gæti orðið að veruleika.

„Ég mun styðja við þá tillögu á fundinum,“ sagði Baroin og bætti við að hann vonaðist til þess að fjármálaráðherrarnir myndu sýna tilraunum Grikkja til að skera niður í ríkisfjármálum virðingu.

Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hefur jafnframt lýst því yfir að Bandaríkjamenn hafi hvatt Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að styðja við neyðarlánið en óljóst er hversu mikið framlag sjóðsins verður.

Forsætisráðherra Grikkja, Lucas Papademos, flaug til Brussel í gær til fundar við fjármálaráðherra evrusvæðisins. Lánið, sem rætt er um, hljóðar upp á 130 milljarða evra en jafnframt verða skuldir sem hljóða upp á 100 milljarða evra afskrifaðar.

Þúsundir manna mótmæltu á götum Grikklands í gær í kjölfar niðurskurðar í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin samþykkti á laugardag.

Verði neyðarlánið veitt verður það annað neyðarlánið sem Grikkir hljóta. 110 milljarða evra neyðarlán, sem veitt var árið 2010, var ekki nægilegt til að koma landinu á réttan kjöl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert