Grikklandi forðað frá falli

Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands (til vinstri) og Lucas Papademos, forsætisráðherra …
Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands (til vinstri) og Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands kynna samkomulag um lausn skuldavanda Grikkja. Reuters

Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, segist vera „mjög ánægður“ með 237 milljarða evra björgunarpakkann sem samþykktur var í nótt og á að leysa skuldavanda Grikkja. Þar af eru afskriftir upp á 107 milljarða evra. Gengi evrunnar hækkaði bæði gagnvart Bandaríkjadollara og japanska jeninu þegar fregnir bárust af samkomulaginu. 

Niðurstaða náðist eftir 14 tíma samningaviðræður í Brussel. Auk afskriftanna fá Grikkir 130 milljarða að láni, meðal annars frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að strangt eftirlit verður haft með ríkisfjármálum Grikklands næstu árin. Papademos, sem er fyrrverandi aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Evrópu, sagði að nú riði á að Grikkir stæðu við sinn hluta samkomulagsins.

„Ég er sannfærður um að ríkisstjórnin mun einbeita sér að því, eftir kosningarnar í apríl, að standa við samkomlagið vegna þess að það þjónar hagsmunum grísku þjóðarinnar,“ sagði Papademos.

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, sem fer fyrir fjármálaráðherrum evruríkjanna, tilkynnti að samkomulagið hefði náðst og sagði það tryggja framtíð Grikkja á evrusvæðinu. Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, sagði að niðurstaðan væri bæði hagstæð Grikkjum og evrusvæðinu. 

Engu að síður heyrðust varnaðarorð um að þetta gæti reynst evrusvæðinu dýrkeypt. „Þrátt fyrir að samkomulag hafi náðst eru flest vandamál Grikkja í framtíðinni, en ekki í fortíðinni,“ sagði belgíski stjórnmálaskýrandinn Sony Kapoor í samtali við AFP-fréttastofuna.

Grísk ríkisskuldabréf að andvirði 14,5 milljarða evra falla í gjalddaga hinn 20. mars. Grikkir hefðu að öllum líkindum lent í greiðslufalli, hefði samkomulag ekki náðst fyrir þann tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert