Væntanlega úrskurðaður í gæsluvarðhald

Dominique Strauss-Kahn við komuna á lögreglustöðina í Lille í morgun
Dominique Strauss-Kahn við komuna á lögreglustöðina í Lille í morgun AP

Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er enn í haldi lögreglu í frönsku borginni Lille en hann var handtekinn þar í morgun. Er talið að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald síðar í kvöld.

Strauss-Kahn mætti á lögreglustöð í Lille snemma í morgun þar sem hann ætlaði að svara spurningum lögreglu varðandi kynlífsveislur sem hann á að hafa tekið þátt í í París og Washington ásamt vændiskonum sem var greitt fyrir að mæta í veislurnar.

Með stöðu grunaðs manns

Í fyrstu var talað um að Strauss-Kahn væri vitni í málinu en að sögn saksóknara hefur hann nú stöðu grunaðs manns. Dómari ákveður hvort gögn í málinu sanni ásakanir saksóknara á hendur Strauss-Kahn. Heimildir AFP fréttastofunnar herma að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald en hann er sakaður um að hafa útvegað vændiskonur og eins er hann sakaður um þátttöku í fjárdrætti. Ef hann verður sakfelldur á hann yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi fyrir að hafa útvegað vændiskonur og fimm ára fangelsi fyrir fjárdrátt.

Á milli yfirheyrslna er Strauss-Kahn látinn dúsa í litlum fangaklefa þar sem ekkert annað er en ein dýna, vaskur og klósett.

Rannsóknardómarar vilja fá upplýsingar um hvort Strauss-Kahn hafi vitað að konurnar sem höfðu ofan af fyrir honum í veislum, veitingastöðum, hótelum og kynlífsklúbbum í Washington, París og nokkrum öðrum borgum Evrópu væru vændiskonur sem fengju greitt fyrir að vera með honum.

Eins hvort hann hafi vitað af því að konunum var greitt úr sjóðum fyrirtækis í Frakklandi sem félagi hans stýrði. Það að greiða fyrir vændi er ekki ólöglegt í Frakklandi en að hagnast af slíkri starfsemi eða að draga fé úr sjóðum fyrirtækja til þess að greiða fyrir kynlíf er aftur á móti ólöglegt. 

Ekki óalgengt að fólk sé nakið í slíkum veislum

Strauss-Kahn viðurkennir að hafa lifað frjálslegu kynlífi en neitar að hafa átt aðild að vændisviðskiptum og spillingu í fjármálum. 

Lögmaður hans, Henri Leclerc, hefur sagt að viðskiptavinur hans hafi jafnvel ekki vitað að hann væri með vændiskonum í þessum kynlífsveislum en það sé ekki óalgengt að fólk sé án klæða í slíkum veislum, að sögn Leclerc. „Ég skora á þig að upplýsa muninn milli naktrar vændiskonu og annarra naktra kvenna,“ segir Leclerc.

Tveir kaupsýslumenn, Fabrice Paszkowski, sem hefur hagnast á sölu lækningatækja og er tengdur franska Sósíalistaflokknum (flokki Strauss-Kahn), og David Roquet, fyrrverandi framkvæmdastjóri dótturfélags byggingarfélagsins BTP Eiffage, hafa verið ákærðir í málinu.

Þeir eru báðir taldir vera með tengsl við glæpahring sem gerir út vændiskonur í Frakklandi og Belgíu, en vændishringurinn var með höfuðstöðvar á Carlton-hótelinu í Lille. Hótelið er vinsæll áfangastaður kaupsýslumanna í borginni og stjórnmálamanna. Alls hafa átta verið handteknir í tengslum við Carlton-málið, þar á meðal þrír yfirmenn á hótelinu, lögfræðingur og aðstoðarlögreglustjóri Lille. 

Hotel Carlton í Lille
Hotel Carlton í Lille Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert