Reynt að forða útburði

Það er dapur veruleiki sem blasir við fjölmörgum Spánverjum þessi …
Það er dapur veruleiki sem blasir við fjölmörgum Spánverjum þessi misserin Reuters

Spænsk stjórnvöld undirbúa lagasetningu sem á að auðvelda skuldugum heimilum að semja um skuldir sínar og á með þessu að koma í veg fyrir að fólk sé borið út af heimilum sínum. Á móti kemur að bankinn eignast íbúð viðkomandi en er óheimilt að bera fólkið út.

Efnahagsráðherra Spánar, Luis de Guindos, kynnti fyrirhugaða lagasetningu á þingi í dag. Með þessu eiga fasteignaeigendur að losna út úr skuldagildrunni sem fjölmörg heimili á Spáni eru föst í.

Fjölmörg hagsmunasamtök hafa krafist þess að eitthvað verði að gert til þess að stöðva bylgju útburðarmála á Spáni þar sem atvinnuleysi mælist tæp 23% eftir að fasteignabólan sprakk árið 2008.

„Ástandið er skelfilegt,“ segir de Guindos. Hann segir að ríkisstjórnin sé samstíga í því að snúa verði þessari þróun við.

De Guindos, sem er fyrrum yfirmaður hjá bandaríska bankanum Lehman Brothers, segir að meðal þeirra aðgerða sem gripið verði til er að ef íbúðaeigendur skila inn íbúðinni þá verði þeir skuldlausir við bankann. Ekki sé heimilt að bera fólk út þrátt fyrir að bankinn hafi eignast húsnæðið og verða sett ákveðinn tímamörk þar að lútandi. Talar de Guindos um tvö ár í því sambandi.

Í dag er því þannig farið á Spáni að bankar geta látið bera fólk út úr íbúðum sínum ef fólk lendir í vanskilum með fasteignalán sín. Í einhverjum tilvikum getur bankinn krafist þess að fá frekari greiðslur frá viðkomandi ef lánið er hærri fjárhæð heldur en virði fasteignarinnar þegar hún er tekin yfir.

„Raunveruleikinn er ömurlegur fyrir fólk sem missir hús sín og það er kannski eina eign þeirra. Krafa um að það láti meira af hendi en þeirra einu eign er óréttlát,“ segir de Guindos.

Samkvæmt upplýsingum úr spænska dómskerfinu hafa 43 þúsund fjölskyldur verið bornar út af heimilum sínum á fyrstu níu mánuðum ársins 2011. Árið 2010 voru útburðarmálin 47.800 talsins.

Fjölmargir Spánverjar hafa misst heimili sín vegna hárra fasteignalána
Fjölmargir Spánverjar hafa misst heimili sín vegna hárra fasteignalána Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka