Eini frambjóðandinn í forsetakosningum sem fram fóru í Jemen í gær fékk 99,8% gildra atkvæða að sögn kjörstjórnar landsins. Frambjóðandinn var Abdrabuh Mansur Hadi, varaforseti Jemen.
Lokaniðurstöður kosninganna hljóða svo að af ríflega 10 milljónum kjörgengra manna greiddu rúmar 6,6 milljónir manna atkvæði. Kjörsókn var því um 66%.
Hadi mun sverja eið sem forseti fyrir þinginu á laugardag og verður vígður forseti á mánudag. Hann tekur við af Ali Abdullah Saleh, sem mun formlega afhenda honum völdin. Saleh hefur undanfarið dvalið í Bandaríkjunum þar sem hann fékk meðferð við sprengjusárum sem hann hlaut þegar árás var gerð á forsetahöllina í júní síðastliðnum.