Evrópumálaráðherra Þýskalands, Michael Link, hefur viðurkennt að nýr sáttmáli á vettvangi Evrópusambandsins um aukinn efnahagslegan samruna hafi verið sérstaklega settur saman með það í huga að mögulegt yrði að komast hjá þjóðaratkvæði um hann á Írlandi. Þetta kom fram í viðtali við hann við írska dagblaðið Irish Times sem birt var í gær.
Samkvæmt úrskurði Hæstaréttar Írlands frá árinu 1987 er nauðsynlegt að breyta stjórnarskrá Írlands þegar gerðar eru verulegar breytingar á sáttmálum Evrópusambandsins en breytingar á stjórnarskránni krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Írar hafa í tvígang fellt sáttmála á vegum Evrópusambandsins, Nice-sáttmálann árið 2001 og Lissabon-sáttmálann árið 2008. Í báðum tilfellum var kosið um sáttmálana árið eftir og voru þeir þá samþykktir.
„Staðan er sú að margir á Írlandi, að mér skilst, eru hræddir við að sáttmálinn hafi áhrif á írsku stjórnarskrána. Við höfum reynt allt til þess að koma því skýrt á framfæri að sáttmálinn sé í samræmi við írsku stjórnarskrána og þar af leiðandi viljum við auðvitað, sé það mögulegt, að Írland, sem mikilvægur aðili að evrusvæðinu, verði einnig hluti af efnahagssáttmálanum,“ sagði Link.
Þýski ráðherrann var þá spurður að því hvort sáttmálinn hefði verið saminn með það fyrir augum að ekki yrði þörf á þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi svaraði hann: „Nákvæmlega.“
Fram kemur í frétt Irish Times að ummæli Link virðist ganga þvert á ummæli forsætisráðherra Írlands, Enda Kenny, í samtali við blaðið fyrr í þessum mánuði þar sem hann neitaði því að hlutar sáttmálans hefðu verið samdir með það að markmiði að gera írskum stjórnvöldum kleift að forðast þjóðaratkvæðagreiðslu.