Áform um að myrða Pútín

Vladímír Pútín.
Vladímír Pútín. Reuters

Yfirvöld í Rússlandi tilkynntu í dag að leyniþjónustu hefði tekist að koma í veg fyrir áform, sem áttu rætur sínar að rekja til hafnarborgar í Úkraínu, um að ráða Vladimir Pútín af dögum eftir forsetakosningarnar 4. mars næstkomandi. Jafnframt kom fram að skipuleggjendurnir hefðu haft tengsl við Tsjetsjeníu.

Ríkissjónvarpið í Rússlandi sýndi í dag myndskeið þar sem tveir menn, grunaðir um að hafa staðið að baki ráðagerðinni, voru í haldi í Odessa í suðurhluta Úkraínu.

Talsmaður Pútíns staðfesti jafnframt að um raunverulega ógn hefði verið að ræða. Leyniþjónustur Rússa og Úkraínumanna staðfestu hið sama en nokkrir álitsgjafar lýstu yfir efasemdum sínum um tímasetningu aðgerðarinnar.

Á myndskeiðum sáust mennirnir tveir jafnframt viðurkenna að þeir hefðu starfað samkvæmt fyrirmælum frá Doku Umarov, Tsjetsjeníumanni, sem hefur lýst því yfir að hann beri ábyrgð mannskæðum sprengjuárásum á flugvelli og lestarstöðvar í Rússlandi undanfarin tvö ár.

Tvíeykið sagðist hafa undirbúið aðgerð sína í Odessa og ráðgert að framkvæma hana í Moskvu eftir kosningarnar 4. mars, sem fastlega er búist við að Pútín vinni örugglega og endurheimti forsetastólinn sem hann sat í á árunum 2000-2008.

Á myndskeiðum sást jafnframt að í ferðatölvum mannanna voru til upptökur af Pútín stíga inn og út úr bifreiðum. Mennirnir héldu því fram að þeir hefðu rannsakað slík myndbönd til að átta sig á því hvernig vernd hans væri háttað.

Að auki fannst mikið magn sprengiefna við brú í Moskvu sem Pútín ekur yfir á hverjum degi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert