Forsetaframbjóðandi franskra sósíalista, Francois Hollande, ætlar að leggja 75% tekjuskatt á þá sem hafa meira en eina milljón evra í árstekjur eða sem nemur um 168 milljónum króna. Þetta tilkynnti hann um á árlegri landbúnaðarsýningu í París.
Tilkynningin kom nokkuð á óvart en hana er ekki að finna í stefnuskrá Hollandes. Sagði hann að það fælist ákveðin föðurlandsást í því að samþykkja að borga meira í skatt til þess að koma mætti efnahagslífi Frakklands aftur í gang.
„Það sendir úr merki, skilaboð um félagslega samstöðu,“ sagði Hollande ennfremur á landbúnaðarsýningunni samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.