Fyrrverandi kanslari Þýskalands, Helmut Kohl, varar við því í grein í þýska blaðinu Bild að fólk glati trausti sínu á sameinaðri Evrópu. Sagði hann að draugar fortíðarinnar væru ekki horfnir og að enn væri framtíð álfunnar spurning um stríð eða frið.
„Yfirstandandi umræður innan Evrópusambandsins og efnahagskrísan í Grikklandi mega ekki leiða til þess að við missum sjónar á stefnunni um sameinaða Evrópu eða efumst um hana og hverfum frá henni,“ sagði Kohl.
Hann sagði að þvert á móti yrði að líta á efnahagskrísuna sem tækifæri. Þörf væri á meiri samruna innan Evrópusambandsins en ekki minni og sérstaklega eins og staðan væri í dag. Þá sagði hann að mikilvægasta verkefni Evrópusamrunans væri sem fyrr að koma í veg fyrir stríð í Evrópu.
„Evrópusambandið er framtíð okkar. Það er enginn annar valkostur en sambandið. Við höfum fulla ástæðu til að vera bjartsýn um að okkur, að Evrópusambandinu okkar, takist að rísa upp úr núverandi erfiðleikum sterkari - ef við viljum það. Látum ekki hugfallast,“ sagði Kohl ennfremur.