Eftirlaunaaldur hækkaður í 80 ár?

Skólastúlkur í Jóhannesarborg í Suður-Afríku.
Skólastúlkur í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Reuters

Svo kann að fara að eftirlaunaaldur háskólaprófessora í Suður-Afríku verði hækkaður úr 60 árum í 80 ár. Samtök um æðri menntun í landinu fagna tillögunni.

Menntamálaráðherra landsins, Blade Nzimande, sagði í dag að það væri óhagkvæmt að skikka prófessora til að setjast í helgan stein við sextugt þegar þeir gætu í raun áfram lagt sitt af mörkum við að byggja upp sérfræðiþekkingu. „Margir prófessorar eru fullkomlega skarpir um áttrætt, en hætta samt störfum um sextugt."

„Við fögnum þessari tillögu, því við teljum að þetta gæti haft mikið að segja við að halda í hæfa fræðimenn," hefur Afp eftir forseta samtaka um æðri menntun í Suður-Afríku. „Sem stendur tekst háskólunum ekki að laða til sín rétta fólkið. Ungt fólk hefur ekki áhuga á að fræðimennsku, það vill frekar vinna fyrir einkageirann."

Almennur eftirlaunaaldur Suður-Afríkumanna er við sextugt, en háskólar hafa heimild til að framlengja ráðningu prófessora í einstaka tilfellum. Meðalaldur háskólaprófessora í landinu er nú 59 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert