Fyrirhugað þjóðaratkvæði um nýjan sáttmála á vettvangi Evrópusambandsins um aukinn efnahagssamruna mun snúast um veru Írlands í sambandinu og á evrusvæðinu. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra landsins, Enda Kenny, við fjölmiðla í Brussel í dag samkvæmt fréttavefnum Euorserver.com.
„Fólkið mun einbeita sér að spurningunni á kjörseðlinum - vill það vera aðilar að Evrópusambandinu, evrunni og evrusvæðinu?“ sagði Kenny.
Enn hefur þó ekki verið ákveðið hvernig orðalagið í spurningunni verður sem kjósendur verða spurðir eða hvenær þjóðaratkvæðið fer fram samkvæmt fréttinni.