Vladimir Pútín, forsætisráðherra Rússlands, segir það vera fjarri lagi að Rússar styðji ríkisstjórn Assads Sýrlandsforseta. Hann neitar að spá nokkru um hvort Assad muni sitja áfram í embætti.
„Við erum ekki í neinu sérstöku sambandi við Sýrlendinga,“ sagði Pútín við blaðamenn í Moskvu í gærkvöldi. Spurður hvort hann héldi að Assad myndi halda áfram að stjórna landinu eftir að átökum linnti svaraði hann því til að hann vildi ekki leggja neitt mat á það.
„Það er greinilegt að þarna eru mjög alvarleg innanríkisvandamál. Þær umbætur sem stjórnvöld hafa boðið hefðu átt að ganga í gegn fyrir löngu,“ sagði Pútín. „Núna þurfum við að fá Sýrlendinga til að hætta að drepa hver annan.“
Mikill þrýstingur hefur verið á Rússa að taka einarðari afstöðu gegn stjórnvöldum í Sýrlandi, en þeim hefur verið legið á hálsi fyrir að styðja mannréttindabrot Assads, t.d. með því að beita neitunarvaldi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar samþykkja átti ályktun þar sem ofbeldi gegn óbreyttum borgurum í Sýrlandi var fordæmt.
Pútin hvetur nú stjórnvöld í Sýrlandi og uppreisnarmenn til að semja um vopnahlé. Hann gagnrýnir jafnframt vestræn ríki fyrir að standa við bakið á uppreisnarmönnum.
Sýrlendingar kaupa allflest vopn sín frá Rússlandi og sterk tengsl ríkjanna tveggja eiga sér langa sögu, allt frá tímum Sovétríkjanna þegar faðir Assads var forseti.