Tugþúsundir sjálfboðaliða fylgjast nú með framkvæmd forsetakosninganna í Rússlandi og nota Twitter og aðra samskiptamiðla til að greina frá þvi sem þeir telja vera kosningasvindl. Starfsmenn kosninganna neita öllu slíku og hafna jafnframt ásökunum um að niðurstöður skoðanakannana, sem sýna mikið forskot Pútíns, hafi verið pantaðar.
Eftir þingkosningarnar í landinu í byrjun desember í fyrra hefur verið hávær orðrómur um að svikum hafi markvisst verið beitt þar og fólk óttast að sú verði einnig raunin í forsetakosningunum.
Tæplega 30 þúsund manns eru staðsettir á kjörstöðum um allt land til að fylgjast með framkvæmd kosninganna og allt athæfi, sem talið er vera kosningasvindl, er skráð á opinbera vefsíðu.
Strax er búið að skrá meira en 3300 slík tilvik í Moskvuborg. Myndband, sem birt var í gær, sýndi lögregluna í Yekaterinburg í Úralfjöllum taka litla rútu, þar sem í voru tíu manns, sem játuðu að hafa kosið nokkrum sinnum.
Hundruð langferðabíla óku inn í Moskvu í dag, full af ungu fólki sem sagðist vera mætt á staðinn til að kjósa Pútín.
Algengt kosningasvindl í Rússlandi felst í því að fólk fer á milli kjörstaða og segist vera að kjósa utan kjörstaðar. Einnig virðist það ekki vera nein fyrirstaða að fólk sé ekki lengur í tölu lifenda, en kona í borginni Omsk í Síberíu greindi frá því að hún hefði séð á kjörskrá að látinn ættingi hennar væri nýbúinn að kjósa.
Ekki er óalgengt að stórfyrirtæki opni kjörstaði á vinnustöðum, þar sem einungis starfsmenn geta kosið og eru kjörklefarnir þá lausir við allt eftirlit.
Starfsmaður kommúnistaflokksins,Valery Rashkin, sagði við AFP-fréttastofuna að fólki í austurhluta Rússlands hefðu verið boðnar 1000 rúblur, eða tæpar 4000 krónur, fyrir að kjósa Pútín og kjörstaðir í borginni Vladivostok buðu kjósendum lottómiða þar sem meðal vinninga voru bifreið og íbúð. „Þetta eru spilltustu kosningarnar undanfarin átta ár,“ sagði Rashkin.