Vill að Grikkir þakki fyrir sig

reuters

Grískir stjórnarandstöðuþingmenn eru ekki nógu þakklátir fyrir viðleitni Þjóðverja og Evrópusambandsins til þess að koma á stöðugleika í efnahagslífi Grikklands. Þetta kemur fram í máli Patricks Dörings, framkvæmdastjóra Frjálsra demókrata í Þýskalandi, í viðtali við þýska dagblaðið Bild am Sonntag í dag, en flokkurinn á aðild að ríkisstjórn Angelu Merkel, kanslara landsins.

Þá sagðist Döring vera pirraður á að forystumenn í þýskum stjórnmálum skuli ítrekað hafa verið teiknaðir í grískum dagblöðum sem nasistar. „Á meðan Þýskaland leggur til fjármagn sýna grískir fjölmiðlar [Wolfgang] Schäuble fjármálaráðherra og Merkel kanslara í nasistabúningum,“ segir hann.

Döring segir að grískir stjórnmálamenn, einkum í stjórnarandstöðunni, tali illa um Evrópusambandið í stað þess að viðurkenna eigin mistök. Segist hann ennfremur vilja sjá Karolos Papoulias, forseta Grikklands, róa ástandið í stað þess að kynda undir átökum. „Þolinmæði kollega þeirra í Þýskalandi og í allri Evrópu fer minnkandi á sama tíma,“ segir hann. „Þeir sem eru reiðubúnir að gera meira sjálfir fá meiri hjálp.“

Hins vegar er Döring andvígur því að Grikkland yfirgefi evrusvæðið þar sem það yrði aðeins til þess að skapa enn stærri efnahagskrísu. Hann myndi þó vilja sjá Grikki axla meiri ábyrgð á stöðu mála og kunna að meta það sem Þýskaland og aðrir séu að reyna að gera til að hjálpa þeim.

„Það er ekki of seint að sýna þakklæti,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert