Franskar stúlkur, allt niður í átta ára, klæðast fylltum brjóstahöldum og háum hælum í skólann og taka jafnvel með sér snyrtibuddur þangað, að því er segir í nýrri franskri þingskýrslu sem birt var í dag. Í henni er einnig lagt til að bundinn verði endi á kynvæðingu ungra stúlkna.
Að sögn Chantal Jouanno, öldungadeildarþingmanns og fyrrverandi íþróttamálaráðherra Frakklands, hefur kynvæðing ekki ennþá skollið á frönskum börnum en hún sé þó hættuleg og foreldrar hafi ástæðu til að vera áhyggjufullir. Jouanno segir m.a. að kynvæðingin geti leitt til anorexíu fyrir kynþroska. Jouanno er meðlimur í Franska íhaldsflokknum UMP.
Þingskýrslan gagnrýnir m.a. fjölmiðla og tískufyrirtæki og ásakar þau um að breiða út ofbeldi og klám.
Á meðal þeirra úrræða sem þingskýrslan leggur til að hrundið verði í framkvæmd eru bann við kynþokkafullum myndatökum af ungum stúlkum og gerð sáttmála sem á að verja hagsmuni barna í fræðslugeiranum, fjölmiðlum og hjá leikfangaframleiðendum.
Nánar má lesa um málið á vef franska fjölmiðilsins The Local.fr.