Indverjar ætla að verja næstu árum í það að smíða eftirlíkingu af Angkor Wat, borginni fornu, en minjar hennar í Kambódíu eru á heimsminjaskrá UNESCO og meðal vinsælustu ferðamannastaða Asíu.
Áætlað er að verkið muni kosta um 20 milljónir Bandaríkjadala, sem fást úr styrktarsjóði hindúa, og mun eftirlíkingin rísa á 40 ekru landsvæði í ríkinu Bihar í austurhluta Indlands. Þeir sem að verkinu standa segja að hofin eigi að verða hæstu hindúahof í heimi, hærri en fyrirmyndin.
„Þetta verður eftirlíking af Angkor Wat en hofið verður aðeins stærra en fyrirmyndin,“ hefur Afp eftir Kishore Kunal, ritara Bihar Mahavir Mandir-styrktarsjóðsins. Eftirlíkingunni verður gefið nafnið Virat Angkor Wat Ram.
Hofin í Angkor í Kambódíu þykja meðal stórkostlegustu fornminja heims. Á fyrstu átta mánuðum ársins 2011 lagði rúm milljón ferðamanna leið sína þangað til að skoða þau.