Mitt Romney vann í sex ríkjum af tíu í forkosningum og forvali repúblikana á þriðjudag og er eftir sem áður líklegastur til að berjast um Hvíta húsið við Barack Obama í haust. Romney var með liðlega 70% í Massachusetts, þar sem hann var á sínum tíma ríkisstjóri. En sigurinn var afar naumur í Ohio, sem skilar mörgum fulltrúum á landsfund, ríkinu þar sem kjósendur hafa svo oft gefið tóninn fyrir landið allt.
Vonir margra flokksmanna um að Romney ynni afgerandi stórsigur á þriðjudag brugðust og á næstu vikum þarf hann að sanna sig í nokkrum mikilvægum ríkjum í suðri. En á þeim slóðum er mikið af kirkjuræknum íhaldsmönnum, fólki sem oft myndar tryggasta kjósendahóp repúblikana en tortryggir Romney.
Auðmaðurinn höfðar til miðjumanna og fólks sem vill markaðshyggju í stað þess að duflað sé við evrópska jafnaðarstefnu eins og repúblikanar segja Obama gera. En Romney á ekki gott með að ná til sauðsvarts almúgans. Og kannanir á landsvísu sýna að helsti keppinauturinn, Rick Santorum, er með næstum því jafnmikinn stuðning meðal repúblikana.
„Hvern fjárann eru kjósendur eiginlega að gera?“ spyrja vonsviknir valdamenn í Repúblikanaflokknum, ef marka má íhaldsmanninn William Kristol sem skrifar í vefritið Weekly Standard. Hann segir þá gnísta tönnum yfir því að ekkert lát verði á næstunni á grimmum leðjuslag sem skaði mjög flokkinn. Kristol segir að Santorum muni sennilega halda sínum hlut og jafnvel gera betur í þeim 14 ríkjum þar sem kosið verður á næstu vikum.
Ef íhaldsmaðurinn Newt Gingrich gefst síðan upp mun það auka veg Santorum sem hefur mun minna auglýsingafé til umráða en Romney. Verði hann eini augljósi kosturinn gegn Romney gætu margir íhaldsmenn ákveðið að veðja á hann með framlögum. Fari svo má búast við geysihörðum átökum þegar kosið verður í New York og fleiri norðausturríkjum í apríl. Hinn íhaldssami Santorum gæti auk þess átt góða möguleika í Texas í lok maí.
Verður forsetaefnið illa dasað eftir þessa baráttu, eins og hálfrotaður hnefaleikamaður sem varla hangir í köðlunum? Þá gæti Obama unnið auðveldlega, sérstaklega ef efnahagurinn heldur áfram að braggast svo mjög að kjósendur finni greinilegan mun þegar kemur að kjördegi. En í grein í The New York Timeser rifjað upp að Obama varð forsetaefni 2008 eftir óralanga og oft sóðalega baráttu við Hillary Clinton. En sigraði samt um haustið.
Bob McDonnell, ríkisstjóri í Virginíu og liðsmaður Romneys, vonar að niðurstaða fáist fljótlega. „En það er sama hvað þetta tekur langan tíma, vonin um að fella Obama mun þétta raðirnar og sameina bæði íhaldssama og frjálshyggjumenn,“ segir McDonnell. Mestur vandi repúblikana er lítil hrifning meðal kjósenda. Könnun Wall Streeet Journal/NBC, sem birt var á sunnudag, sýndi að óháðir kjósendur væru yfirleitt áhugalausir um forsetaefni repúblikana. Og fjórir af hverjum tíu kjósendum í Ohio sögðust aðspurðir eftir forkosningarnar enn hafa efasemdir um þann sem þeir kusu.
Reglur um úthlutun fulltrúa á landsfund repúblikana eru mismunandi í sambandsríkjunum 50 og hjálendum eins og Púertó Ríko, Samóa-eyjum og fl. Sums staðar fær sá sem er efstur alla fulltrúana en algengast er að þeim sé að mestu skipt í samræmi við atkvæðafjölda.
Fulltrúafjöldinn fer að mestu eftir íbúafjölda hvers ríkis. Fjölmennasta ríkið, Kalifornía, er með nær 38 milljónir íbúa en það fámennasta er Alaska með liðlega 700 þúsund.
Frambjóðandi þarf að fá atkvæði minnst 1.144 fulltrúa á landsfundinum til að hreppa útnefninguna sem forsetaefni flokksins í kosningunum í nóvember. Romney er búinn að tryggja sér 415 fulltrúa, Santorum 176.