Fólk frá Miðjarðarhafsríkjum á ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum í Þýskalandi samkvæmt nýrri tilskipun sem þýska atvinnumálaráðuneytið hefur samþykkt. Talið er að einkum sé um að ræða viðleitni til þess að hamla gegn komu fólks til Þýskalands frá ríkjum innan Evrópusambandsins sem eiga við efnahagserfiðleika að setja.
Samkvæmt tilskipuninni eiga þessar aðgerðir við um 14 ríki innan Evrópusambandsins auk Noregs, Íslands og Tyrklands. Fólk frá þessum ríkjum sem búsett er í Þýskalandi getur eftirleiðis ekki sótt um grunnatvinnuleysisbætur sem kallast Hartz IV. Þau ríki Evrópusambandsins sem bannið nær til eru meðal annars Grikkland, Spánn og Portúgal sem átt hafa í miklum efnahagserfiðleikum.
Fréttavefurinn Thelocal.de segir frá þessu í dag.